Bókasafnið Ísafirði

Þú ert hér Heim  > Almenningsbókasöfn >  Bókasafnið Ísafirði
Mynd

Bókasafnið er stofnað árið 1889 og er bæjar- og héraðsbókasafn. Lengst af bjó safnið við þröngan kost en árið 2003 var flutt í nýuppgert húsnæði. Safnahúsið sem var vígt þetta sama ár, Ísfirðingar þekkja það sem Gamla sjúkrahúsið við Eyrartún. Húsið var byggt árið 1925, hannað af  Guðjóni Samúelssyni og er það um 1000 m2, á 4 hæðum. Safnahúsið hýsir einnig Héraðsskjalasafnið, Ljósmyndasafnið og Listasafn Ísafjarðar og er  eitt af þremur menningarhúsum bæjarins í samræmi við samning sveitarfélaga og ríkisins  um menningarhús á landsbyggðinni.

 

Safnkostur og þjónusta

Í safninu eru um 85.000 bækur og tímarit auk kvikmynda og fræðsluefnis á dvd og myndbandi, tónlistardiska og fleira. Er um að ræða bæði skáldskap sem fræðirit af ýmsu tagi. Skáldsögur eru fáanlegar á ýmsum tungumálum  auk íslenslu, svosem ensku, pólsku, norðurlandamálum, þýsku, frönsku og taílensku. Safnkosturinn er skráður Gegni, í samskrá íslenskra bókasafna.

Í blaðastofu eru fjölmörg dagblöð og tímarit til að lesa á staðnum og ávallt heitt á könnunni. Úrval tímarita er einnig til útláns. Bókasafnið er “heitur reitur” fyrir þá sem vilja komast á Internetið í eigin tölvu, en í boði er einnig afnot af nettengdum tölvum. Í lessalnum er handbókasafn og góð aðstaða fyrir þá sem vilja læra eða vinna í ró og næði. Aðgengi er að bókasafninu fyrir fólk í hjólastólum.

Bókasafnið veitir alla almenna þjónustu svo sem útlán, upplýsingaþjónustu og leiðsögn að íslenskum heimildum og erlendum eftir því sem þörf krefur, með innkaupum, millisafnalánum, síma- eða tölvusambandi og veitir jafnframt aðstöðu til að nota þessi gögn í safninu.

Opið er 28 klst. á viku allan ársins hring. Virka daga er opið kl. 13-18 og laugardaga kl. 13-16. Safnið er þó stundum opið utan venjulegs afgreiðslutíma sumarmánuðina þegar skemmtiferðaskip heimsækja Ísafjörð Bókasafnsskírteini eru seld á 2.200 kr., en börn á grunnskólaaldri fá fyrsta skírteini ókeypis.

 

Börn og unglingar

Bókasafnið er í góðu samstarfi við leik- og grunnskóla í bænum. Leikskólahópar heimsækja reglulega barnadeildina og haldnar eru sögustundir. Staðið er fyrir safnkynningum fyrir nemendur grunnskóla.  Bangsadagurinn er ávallt haldinn hátíðlegur á Bókasafninu Ísafirði og á sumrin er lestrarátakið Sumarlestur fyrir börn á grunnskólaaldri. Því lýkur með uppskeruhátíð í lok sumars þar sem allir þátttakendur fyrir lítinn glaðning.

Unglingarnir eiga sitt horn með tímaritum, myndasögum og fleira. Menntaskólanemar fá aðstoð við að afla heimilda fyrir ritgerðarverkefni og stendur þeim einnig til boða að nýta aðstöðuna í safninu til að vinna verkefni.

 

Sýningar og viðburðir

Í Safnahúsinu er sýningarsalur þar sem reglulega eru haldnar sýningar, svosem myndlista- eða ljósmyndasýningar og menningartengdir viðburðir. Yfir vetrarmánuðina fara þar af og til fram Vestfirskir húslestrar  í samstafi við Kómedíuleikhúsið, þar sem fjallað er um og lesið upp úr verkum vestfirskra höfunda. Sumarið 2013 bauð bókasafnið  upp á Sumarlestur fyrir fullorðna, lestrarleik svipaðan Sumarlestri fyrir börn.


Heimilisfang

Heimilisfang:
Safnahúsið, Eyrartúni 400 Ísafjörður
GPS:
66.0763806, -23.126149199999986
Sími:
450 8220
bokasafn@isafjordur.is
Vefur:
http://safn.isafjordur.is/

Afgreiðslutími

Mánudagar:
13:00-18:00
Þriðjudagar:
13:00-18:00
Miðvikudagar:
13:00-18:00
Fimmtudagar:
13:00-18:00
Föstudagar:
13:00-18:00
Laugardagar:
13:00-16:00

Segðu þína skoðun

Þjónusta
Úrval
Staðsetning
Starfsfólk

Lokað er fyrir ummæli.